Byggingarleyfi

Umsókn um byggingarleyfi

Sótt er um byggingarleyfi á Mín Árborg - Íbúagátt.  Lóðarhafar eða hönnunarstjórar í umboði lóðarhafa geta sótt um byggingarleyfi.

Umsókn skulu fylgja eftirtalin gögn og staðfestingar:

  • Aðaluppdrættir á pdf-formi ásamt byggingarlýsingu.
  • Greinargerð aðalhönnuðar skv. gr. 4.5.3.
  • Mæli- og hæðarblað er sýnir götunafn og númer, afstöðu húss og lóðar, hæðarlegu miðað við götu, eftir því sem við á og hnitaskrá og landnúmer.
  • Tilkynning um hönnunarstjóra mannvirkisins, og staðfesting hans á ábyrgð sinni ásamt staðfestingu á starfsábyrgðartryggingu.
  • Samþykki meðeigenda eða annarra aðila eftir atvikum.
  • Skráningartafla á Excel formi vegna allra nýrra mannvirkja svo og vegna breytinga á stærð eða breytinga á
    eignarmörkum eldri mannvirkja

Byggingarfulltrúi kallar eftir öðrum gögnum sem talin eru nauðsynleg vegna afgreiðslu umsóknar, s.s. umsögn Minjastofnunar Íslands, Vinnueftirlits ríkisins, slökkviliðs og annarra eftirlitsaðila og gögn sem sýna fram á eignarheimildir, réttindi hönnuða o.fl.

Leyfisveitandi ákveður hvort og að hvaða leyti leggja þarf fram aðaluppdrætti vegna breytinga á þegar byggðum mannvirkjum.

Sé bygging eða starfsemi sérstaks eðlis getur byggingarfulltrúi krafist þess að viðbótargreinargerð fylgi umsókn auk greinargerða skv. 4.5.3. gr.

Afgreiðsluferli umsóknar um byggingarleyfi skiptist í tvo megin þætti; samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis og fer afgreiðsla m.a. eftir hvaða gögn hafa verið lögð fram:

Samþykkt byggingaráforma:

Byggingarfulltrúi yfirfer framlögð gögn, aflar staðfestingar skipulagsfulltrúa um að byggingaráform samræmist skipulagi, staðfestingar Mannvirkja- og umhverfissvið að lóðin sé byggingarhæf og leggur umsóknina fyrir afgreiðslufund.

Á afgreiðslufundi eru byggingaráform samþykkt með eða án fyrirvara, málið áframsent til skipulagsnefndar eða umsókn hafnað.

Umsækjanda og hönnunarstjóra er tilkynnt niðurstaðan með tölvupósti eða tilkynningu á island.is

Útgáfa byggingarleyfis:

Þegar byggingaráform hafa verið samþykkt gefur byggingarfulltrúi út byggingarleyfi þegar umsækjandi og/eða hönnunarstjóri hafa hlaðið upp eftirfarandi gögnum og gengið frá skráningum og staðfestingum:

  • Aðaluppdrættir áritaðir af hönnuði og hönnunarstjóra liggja fyrir, þeir samþykktir af byggingarfulltrúa og hafa verið stafrænt staðfestir af hönnuði, hönnunarstjóra og byggingarfulltrúa.  Staðfestir uppdrættir eru færðir á map.is/arborg og eru þá aðgengilegir til skoðunar og útprentunar.
  • Áætlun framkvæmdaaðila um verkframvindu liggur fyrir (áætlaðar dagsetningar fyrir t.d. upphaf framkvæmda, fokheldi og tilbúið til öryggis- eða lokaúttektar).
  • Hönnunarstjóri hefur skráð aðra hönnuði eftir ábyrgðarsviði og þeir hafa staðfest ábyrgð sína og lagt fram staðfestingu tryggingarfélags á starfsábyrgðartryggingu.
  • Hönnnarstjóri hefur lagt fram yfirlit um innra eftirlit við framkvæmd hönnunar.
  • Byggingarstjóri hefur verið skráður, hann staðfest ábyrgð sína og lagt fram staðfestingu tryggingarfélags á starfsábyrgðartryggingu.
  • Byggingarstjóri hefur skráð húsasmíðameistara, múrarameistara, pípulagningameistara og rafvirkjameistara og þeir staðfest ábyrgð sína.
  • Byggingaleyfisgjöld og önnur tilheyrandi gjöld hafa verið greidd (byggingarfulltrúi aflar staðfestingar).