Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa

Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa

Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa eru að jafnaði haldnir annan hvern miðvikudag.

Afgreiðslufund byggingarfulltrúa sitja byggingarfulltrúi, skipulagsfulltrúi og starfsmenn ásamt fulltrúa Brunavarna Árnessýslu. Á fundinum er kannað hvort gögn umsóknar uppfylli öll viðeigandi ákvæði laga um mannvirki og byggingarreglugerðar. Byggingarfulltrúi getur leitað umsagnar annarra eftirlitsaðila eða ráðgjafa, s.s. heilbrigðiseftirlits, Vinnueftirlits ríkisins og Minjastofnunar Íslands við yfirferð uppdrátta.

Erindi til afgreiðslu byggingarfulltrúa skulu hafa borist byggingarfulltrúa í síðasta lagi fyrir lok föstudags í vikunni fyrir afgreiðslufund.

Eftir eðli máls og fyrirliggjandi gögnum getur byggingarfulltrúi afgreitt mál á eftirfarandi hátt:

Byggingarheimild er veitt skv. byggingarreglugerð gr. 2.3.8

  • Mannvirkið og notkun þess eða breytingar á mannvirki samræmast skipulagsáætlunum.
  • Gögn liggja fyrr sem sýna fram á eignarheimildir og samþykki meðeigenda þegar við á.
  • Aðaluppdrættir hafa verið yfirfarnir og staðfestir.
  • Skráningartafla liggur fyrir á Excel-formi vegna nýrra mannvirkja og breytinga á stærð eða eignarmörkum eldri
    mannvirkja.
  • Byggingarstjóri hefur staðfest ábyrgð sína og lagt fram staðfestingu tryggingarfélags á starfsábyrgðartryggingu.
  • Byggingarheimildargjöld og önnur tilskilin gjöld hafa verið greidd.

Byggingaráform samþykkt sbr. byggingarreglugerð gr. 2.4.2

  • Fyrirhuguð framkvæmd er í samræmi við skipulag.
  • Aðaluppdrættir liggja fyrir og hafa verið yfirfarnir og eftir atvikum leiðréttir.
  • Greinargerð aðalhönnuðar liggur fyrir (gr. 4.5.3) ásamt greinargerð vegna brunavarna (gr. 9.2.3).
  • Mæli- og hæðarblöð liggja fyrir.
  • Tilkynnt hefur verið um hönnunarsstjóra, hann staðfest ábyrgð sína og lagt fram staðfestingu tryggingarfélags á starfsábyrgðartryggingu.
  • Fyrir liggur samþykki meðeiganda eða annara aðila eftir atvikum.
  • Skráningartafla liggur fyrir á Excel-formi
  • Önnur gögn sbr. gr. 2.4.1 d. sem byggingarfulltrúi getur krafist vegna eðli máls liggja fyrir.

Byggingarleyfi samþykkt sbr. byggingarreglugerð gr. 2.4.4

  • Aðaluppdrættir áritaðir af hönnuði og hönnunarstjóra liggja fyrir og hafa verið staðfestir af byggingarfulltrúa.
  • Áætlun framkvæmdaaðila um verkframvindu liggur fyrir (áætlaðar dagsetningar fyrir t.d. upphaf framkvæmda, fokheldi og tilbúið til öryggis- eða lokaúttektar).
  • Hönnunarstjóri hefur skráð aðra hönnuði eftir ábyrgðarsviði og þeir hafa staðfest ábyrgð sína og lagt fram staðfestingu tryggingarfélags á starfsábyrgðartryggingu.
  • Yfirlit hönnunarstjóra um innra eftirlit við framkvæmd hönnunar liggur fyrir.
  • Byggingarstjóri hefur verið skráður, hann staðfest ábyrgð sína og lagt fram staðfestingu tryggingarfélags á starfsábyrgðartryggingu.
  • Byggingarstjóri hefur skráð húsasmíðameistara, múrarameistara, pípulagningameistara og rafvirkjameistara og þeir staðfest ábyrgð sína.

Takmarkað byggingarleyfi samþykkt

  • Leyfi til útsetningar á lóð, undirbúnings á vinnusvæði s.s. vinnuplan og tímabundnar girðingar að því tilskyldu að öll gögn til að gefa út byggingarleyfi liggi fyrir nema skráning og staðfesting iðnmeistara.
  • Leyfi til útsetningar fyrir greftri, greftri, fyllingu og þjöppum að því tilskyldu að öll gögn til að gefa út byggingarleyfi liggi fyrir nema skráning og staðfesting allra iðnmeistara. Skráning og staðfesting annað hvort múrara- eða húsasmíðameistara sem bera ábyrgð að verkþættinum þarf að liggja fyrir.

Vísað til nefndar

  • Deiliskipulag liggur ekki fyrir eða áformuð framkvæmd krefst minniháttar breytingar á deiliskipulagi og/eða grenndarkynningar.
  • Ákvæði í deiliskipulagi kveða á um að skipulagsnefnd fjalli sérstaklega um einhverja þætti t.d skipulag lóðar.

Frestað

  • Umsókn uppfyllir ekki kröfur til að hægt sé að samþykkja byggingaráform en líklegt þykir að umsækjandi bæti úr fyrir næsta afgreiðslufund.

Hafnað

  • Umsókn uppfyllir ekki kröfur til að hægt sé að samþykkja byggingaráform.