Algengar spurningar
Spurningar og svör
Hvert er hlutverk byggingarfulltrúa?
Byggingarfulltrúi starfar í umboði sveitarstjórnar. Eftir að sveitarstjórn hefur samþykkt skipulag, s.s. aðalskipulag og/eða deiliskipulag hefur verið mörkuð stefnan um hvers konar mannvirki megi vera á viðkomandi svæði. Hlutverk byggingarfulltrúans er því fyrst og fremst að gæta þess að framkvæmdir séu í takt við gildandi skipulag á hverju svæði fyrir sig og að byggt sé eftir þeim kröfum um fagmennsku og efnisval sem settar eru fram í lögum og byggingareglugerðum.
Eftir að byggingarleyfi hefur verið gefið út lætur byggingarfulltrúi mæla fyrir greftri og síðar fyrir sökklum húss á byggingarreit skv. óskum byggingarstjóra. Á framkvæmdatíma er síðan hlutverk byggingarfulltrúa að fylgjast með að framkvæmdunum þar til lokaúttekt hefur verið gerð. Byggingarfulltrúi fylgist með framkvæmdum með því að gera stöðuskoðanir þar sem m.a. er kannað hvort byggingarstjórar geri lögboðnar áfangaúttektir og skili í málakerfi byggingarfulltrúa eða í Byggingargátt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og hvort innsendar áfangaúttekti séu í samræmi við framvindu verksins. Byggingarfulltrúi uppfærir byggingarstig framkvæmdar eftir því sem upplýsingar liggja fyrir. Að framkvæmdum loknum gerir byggingarfulltrúi síðan lokaúttekt á mannvirkinu ásamt fagaðila frá brunavörnum og gefur út lokaúttektarvottorð ef framkvæmdin uppfyllir öll skilyrði um eldvarnir og önnur atriði sem gátlisti lokaúttektar ber með sér. Þar með er hlutverki byggingarfulltrúa vegna þessarar tilteknu framkvæmdar lokið.
Það er einnig hlutverk byggingarfulltrúa að gefa umsagnir um:
- Umsóknir um rekstrarleyfi sem sýslumaður veitir, s.s. vegna gisti- og veitingastaða og vínveitingarleyfa.
- Umsóknir um starfsleyfi sem Heilbrigðiseftirlit veitir.
Hvenær þarf að sækja um byggingarleyfi?
Almenna reglan er sú að sækja þarf um byggingarleyfi fyrir öllum nýjum mannvirkjum, viðbyggingum og breytingum t.d. á útliti, burðarkerfi og lagnakerfum. Einnig þarf að sækja um leyfi til að rífa og flytja mannvirki.
Sækja þarf um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis, t.d. ef atvinnuhúsnæði er breytt í íbúðarhúsnæði, íbúðarhúsnæði í gististað þar sem gestafjöldi er yfir 10 manns, verslunar- og skrifstofuhúsnæði í veitingastað o.s.frv. Oftast kallar slík breytt notkun á breytingar á húsnæðinu, t.d. varðandi eldvarnir. Þó einungis sé um breytta notkun að ræða en ekki breytingar á húsnæðinu sjálfu þarf eftir sem áður að sækja um byggingarleyfi. Byggingaryfirvöld fara þá yfir hvort hin breytta notkun samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu og meta hvort húsnæðið uppfyllir ákvæði gildandi byggingarreglugerðar vegna hinnar breyttu notkunar.
Sótt er um byggingarleyfi á rafrænan hátt á Mínum síðum Árborgar.
Sjá einnig svör við eftirfarandi spurningunum hér á síðunni:
Hvað er mannvirki?
Hvaða framkvæmdir eru leyfðar án byggingaleyfis?
Sjá nánar í kafla 2.3 í byggingarreglugerð 112/2010 með síðari breytingum
Hvað má ég byggja stóran kofa á byggingarleyfis?
Stutta svarið við þessari spurningu er 15 fermetrar og fellur kofinn þá undir skilgreiningu smáhýsis.
Athugið þó að gildandi deiliskipulag á hverju svæði fyrir sig getur sett fram sérstök skilyrði um leyfilega stærð smáhýsa, bæði til stækkunar eða minnkunar. Deiliskipulagið getur jafnvel bannað slík smáhýsi með öllu. Hægt er að kanna hvort deiliskipulag sé til fyrir þitt svæði á kortasjánni www.map.is/arborg.
Deiliskipulag er alltaf rétthærra en almenn ákvæði byggingarreglugerðar.
Smáhýsið þarf að sjálfsögðu að byggja innan lóðamarka en má byggja utan skilgreinds byggingareits. Frumskilyrði þess að smáhýsið þurfi ekki byggingarleyfi er að það sé ekki íverustaður manna til gistingar heldur er hér einkum átt við að smáhýsið gegni hlutverki geymslu fyrir garðáhöld og þess háttar.
Önnur skilyrði eru:
Hæð þaks á smáhýsi má mest vera 2,5 metrar, mælt frá yfirborði jarðvegs
Veggur smáhýsis sem snýr að lóðarmörkum og er nær lóðarmörkum en 3,0 metrar skal vera glugga- og hurðalaus
Ef smáhýsi er nær lóðarmörkum en 3,0 metrar skal liggja fyrir skriflegt samþykki lóðarhafa þeirrar nágrannalóðar og skal það lagt fram hjá byggingarfulltrúa.
Fjarlægð milli smáhýsa innbyrðis, frá glugga eða hurð húss og frá útvegg timburhúss þarf að vera að lágmarki 3,0 metrar – nema sýnt sé fram á að brunamótstaða veggja smáhýsisins og aðliggjandi húss sé þannig að fullnægjandi brunahólfun náist á milli húsanna.
Hver er munurinn á tilkynningarskyldri framkvæmd og framkvæmd sem er háð byggingarleyfi?
Helsti munurinn er sá að tilkynningarskyld framkvæmd er alfarið gerð á ábyrgð eiganda og hönnuðar. Ekki er gerð krafa um byggingarstjóra fyrir framkvæmdina eða að iðnmeistarar staðfesti ábyrgð sína gagnvart byggingaryfirvöldum. Engar úttektir fara fram af hálfu byggingaryfirvalda, hvorki áfanga-, stöðu-, öryggis- eða lokaúttektir.
Hinsvegar verður eigandi að ráða til sín löggildan hönnuð sem útbýr aðal- og séruppdrætti vegna viðbygginga og lítilla húsa og skal senda þau gögn á pdf. formi með umsókn um tilkynningarskylda framkvæmd á Mínum síðum Árborgar. Í greinargerð hönnuðarins verður að koma fram rökstuðningur fyrir því að fyrirhuguð framkvæmd sé innan þeirra marka sem tilgreind eru í byggingarreglugerð og að hún samræmist skipulagsáætlunum þess svæðis þar sem framkvæmdin mun eiga sér stað.
Þar sem eigandi ber svo ríka ábyrgð á framkvæmdinni er honum eindregið ráðlagt að ráða fagmenn til verksins sem hjálpa honum að tryggja að fylgt sé kröfum laga og reglugerða um byggingarframkvæmdir og þeim hönnunargögnum sem afhent voru byggingaryfirvöldum vegna tilkynningarinnar.
Óheimilt er að hefja tilkynningarskylda framkvæmd fyrr en byggingarfulltrúi hefur formlega samþykkt að hann fallist á þau rök að framkvæmdin samræmist skipulagsáætlunum og sé innan þeirra marka sem tilgreind er í grein 2.3.5 í byggingarreglugerð sem veita undanþágu frá byggingarleyfi.
Sjá ítarlegri upplýsingar hér annars staðar á síðunni um tilkynningarskyldar framkvæmdir og hvaða framkvæmdir falla þar undir.
Hvað þarf til að fá takmarkað byggingarleyfi (graftrarleyfi)?
Leyfi til útsetingar á lóð, undirbúnings á vinnusvæði s.s. vinnuplan og tímabundnar girðingar er hægt að fá ef öll gögn til að gefa út byggingarleyfi ligga fyrir nema skráning og staðfesting iðnmeistara.
Leyfi til útsetningar fyrir greftri, greftri, fyllingu og þjöppum er hægt að fá að því tilskyldu að öll gögn til að gefa út byggingarleyfi liggi fyrir nema skráning og staðfesting allra iðnmeistara. Skráning og staðfesting annað hvort múrara- eða húsasmíðameistara sem bera ábyrgð að verkþættinum þarf að liggja fyrir.
Hvar fæ ég afrit af uppdráttum?
Uppdrættir eru aðgengilegir á Kortasjá www.map.is/arborg. Haka þarf við „Teikningar af byggingum“ á hægri spalta og þysja sig inn á loftmyndinni þar til húsið finnst sem óskað er eftir teikningum af. Með því að smella á appelsínugulan punkt yfir húsinu birtist tafla yfir aðaluppdrætti viðkomandi byggingar.
Hvernig er ferill byggingamáls hjá byggingarfulltrúa?
Ferli umsóknar um byggingarleyfi skiptist í tvo meginþætti:
- Samþykkt byggingaráforma
- Útgáfa byggingarleyfis
Samþykkt byggingaráforma:
Öll byggingarmál byrja þannig að umsækjandi óskar eftir byggingarleyfi með því að sækja um á umsóknarsíðu á Mínum síðum Árborgar sem finna má á síðunni www.arborg.is.
Mikilvægt er að samþykki allra eigenda byggingarlóðarinnar liggi fyrir eða séu skráðir umsækjendur um byggingarleyfið
Með umsókninni þurfa að fylgja eftirfarandi gögn til að hægt sé að taka afstöðu til samþykktar byggingaráforma:
- Aðaluppdrættir á pdf- formi sem hlaðið er upp þegar umsókn er gerð.
- Greinargerð aðalhönnuðar (gr. 4.5.3) ásamt greinargerð vegna brunavarna (gr. 9.2.3).
- Mæli- og hæðarblöð.
- Tilkynning um hönnunarsstjóra og staðfesting hans, staðfesting tryggingarfélags á starfsábyrgðartryggingu.
- Skráningartafla á Excel-formi
Á afgreiðslufundi fer byggingarfulltrúi yfir umsóknina og gætir að því hvort framlögð gögn sýni fram á að umsóknin sé í samræmi við gildandi skipulag á því svæði sem byggingarlóðin er á.
Ef umsókn er ekki í samræmi við gildandi skipulag -> máli hafnað eða sent áfram á skipulagsfulltrúa
Ef umsókn er í samræmi við gildandi skipulag og uppfyllir kröfur byggingareglugerðar -> Samþykkt byggingaráform
Eftir afgreiðslufund er umsækjandi upplýstur um það formlega í tölvupósti – eða í einstaka tilvikum bréflega – hver niðurstaða afgreiðslufundar byggingarfulltrúa sé.
Samþykkt byggingaráform jafngildir ekki byggingarleyfi heldur gefur aðeins til kynna að byggingaráformin séu í samræmi við skipulag og að senda megi inn frekari gögn og upplýsingar til að fá útgefið byggingarleyfi.
Byggingarleyfi:
Ekki er gefið út formlegt byggingarleyfi fyrr en eftirfarandi atriði hafa verið uppfyllt:
- Aðaluppdrættir liggja fyrir og hafa verið leiðréttir og staðfestir af hönnuði/hönnunarstjóra og áritaðir af byggingarfulltrúa.
- Áætlun framkvæmdaaðila um verkframvindu liggur fyrir (áætlaðar dagsetningar fyrir t.d. upphaf framkvæmda, fokheldi og tilbúið til öryggis- eða lokaúttektar).
- Hönnunarstjóri hefur skráð aðra hönnuði eftir ábyrgðarsviði og þeir hafa staðfest ábyrgð sína og lagt fram staðfestingu tryggingarfélags á starfsábyrgðartryggingu.
- Yfirlit hönnunarstjóra um innra eftirlit við framkvæmd hönnunar liggur fyrir (fyrir stærri framkvæmdir).
- Byggingarstjóri hefur verið skráður, hann staðfest ábyrgð sína og lagt fram staðfestingu tryggingarfélags á starfsábyrgðartryggingu.
- Byggingarstjóri hefur skráð húsasmíðameistara, múrarameistara, pípulagningameistara og rafvirkjameistara og þeir staðfest ábyrgð sína.
Byggingarleyfi er afgreitt með fyrirvara um að byggingarleyfisgjöld og önnur tilkilin gjöld verið greidd inn tilgreinds greiðslufrests skv. reikningi sveitarfélagsins. Byggingarleyfi fellur úr gildi ef byggingarleyfisgjöld fara í vanskil
Þegar byggingarleyfi hefur verið gefið út má hefja framkvæmdir
Hvar get ég fundið upplýsingar um það hvort íbúðir séu „samþykktar?
Embætti byggingarfulltrúa veitir upplýsingar um það hvort íbúðir séu „samþykktar“.
Hafðu samband í síma 480-1900 eða sendu fyrirspurn á netfangið: byggingarfulltrui@arborg.is
Hvað er mannvirki?
Hugtakið mannvirki er þannig skilgreint í byggingarreglugerð 112/2012:
„Mannvirki: Hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt reglugerð þessari“.
Hvað þarf að gera ef ætlunin er að flytja eldra, þegar byggt hús á byggingarlóð?
Leyfi byggingarfulltrúa fyrir flutningi á þegar byggðu húsi er háð því að húsið falli að því skipulagi sem gildir um það svæði sem byggingarlóðin er á. Í upphafi ætti umsækjandi því að athuga hvort deiliskipulag sé í gildi yfir þá byggingarlóð þar sem hann hyggst staðsetja húsið og velta fyrir sér hvort húsið falli að því skipulagi. Einfaldast er að kanna þetta með því að fara inn á Kortasjá (www.map.is/arborg), þysja sig inn á svæðið á loftmyndinni þar sem byggingarlóðin er, sprengja út „Skipulag“ með því að ýta á + og haka síðan við „Deiliskipulag“.
Að því loknu þarf að sækja um byggingarleyfi inn á Mínum síðum Árborgar og láta eftirfarandi gögn fylgja með umsókninni:
Afstöðumynd af staðsetningu húss ásamt byggingarlýsingu sem skýrir hvað er verið að gera
Ástandsmati á húsinu sem unnin er af fagmanni s.s. húsasmíðameistara eða hönnuði
Skráningartöflu hússins sem segir til um allar mælistærðir hússins
Núverandi eigandi þarf að skila inn veðbókarvottorði sem staðfesti að engin veðbönd hvíli á húsinu.
Þessi upptalning ber með sér að eigandinn sem hyggst flytja húsið verður að hafa með í ráðum hönnuð með löggildingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem hefur leyfi til að skila inn þeim gögnum sem gerð er krafa um.
Hvaða framkvæmdir eru leyfðar án byggingarleyfis?
Sjá undanþegið byggingarheimild og -leyfi annars staðar á síðunni.
Frá hverjum þarf leyfi til að staðsetja skjólvegg á lóðarmörkum?
Sækja þarf um byggingarleyfi hjá embætti byggingarfulltrúa fyrir skjólveggjum og girðingum lóða sem ekki falla undir undanþáguákvæði byggingarreglugerðar.
Til undantekningar teljast:
Skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m.
Girðingar eða skjólveggir sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og eru ekki hærri en sem nemur fjarlægðinni að lóðarmörkum.
Allt að 2,0 m langir og 2,5 m háir skjólveggir sem eru áfastir við hús og í a.m.k. 1,8 m fjarlægð frá lóðarmörkum.
Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingu eða skjólvegg allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina. Hámarkshæð girðingar/skjólveggjar miðast við jarðvegshæð við girðingu/vegg eða jarðvegshæð lóðar á lóðarmörkum ef hæð jarðvegs þar er meiri en jarðvegshæð á lóð við vegginn.
Eru skilti byggingarleyfisskyld?
Hvers konar skilti sem eru yfir 1,5 fermeter að flatarmáli eru byggingarleyfisskyld, hvort sem um er að ræða frístandandi skilti eða skilti á byggingum. Undantekning frá kröfu um byggingarleyfi eru þó tímabundin skilti undir 2,0 fermetrar að stærð sem ætlað er að standa skemur en tvær vikur. Umferðarskilti og þess háttar skilti eru ekki byggingarleyfisskyld.
Sækja skal um byggingarleyfi fyrir varanlegum skiltum sem eru stærri en 1,5 fermeter að stærð í gegnum þjónustugátt byggingarfulltrúa. Umsókn skulu fylgja gögn sem sýna útlit, fyrirkomulag og öryggi skiltanna.
Fjallað er um skilti í kafla 2.5 í byggingarreglugerð og þar er sérstaklega áréttað í kafla 2.5.2 að tryggja verði við gerð og uppsetningu skiltanna að þau valdi ekki hættu gagnvart almenningi eða öðrum eignum.
Hvernig eru byggingarstjóri og iðnmeistarar skráir á verk?
Eigandi þeirrar eignar þar sem byggingarframkvæmdir standa til skráir nafn og kennitölu byggingarstjóra verksins í umsóknarforminu um byggingarleyfi á „Mín Árborg“. Þegar embætti byggingarfulltrúa hefur samþykkt byggingarstjórann, þá ber byggingarstjórinn í framhaldinu ábyrgð á því að leggja fyrir byggingarfulltrúa lista yfir þá iðnmeistara sem hann hyggst ráða til verksins. Byggingarstjóri og iðnmeistarar undirrita staðfestingu sína á tiltekin verk með rafrænum hætti.
Ef byggingarstjóri hættir á meðan á framkvæmdum stendur ber eigandi ábyrgð á því að nýr byggingarstjóri taki við störfum án tafar og á að tilkynna breytinguna til embættis byggingarfulltrúa í gegnum „Mín Árborg“.
Hætti iðnmeistari umsjón með framkvæmdum áður en verki er lokið sér byggingarstjóri um að nýr iðnmeistari taki til starfa án tafar og að tilkynna breytinguna til embættis byggingarfulltrúa í gegnum „Mín Árborg“.
Hvert er hlutverk hönnunarstjóra?
Strax í upphafi þegar sótt er um byggingarleyfi skal eigandi tilnefna hönnunarstjóra sem skal hafa yfirumsjón með og bera ábyrgð á því að samræming hönnunargagna (aðal- og séruppdrátta) fari fram.
Hver og einn hönnuður séruppdrátta ber síðan ábyrgð á því að hönnun hans samræmist aðaluppdrætti.
Hönnunarstjóri skal vera löggiltur hönnuður og hafa löggildingu eða sambærileg réttindi til að leggja fram uppdrætti.
Hönnunarstjóri má vera einn af hönnuðum mannvirkisins, t.d. hönnuður aðaluppdrátta, en það er þó ekki skilyrði. Hönnunarstjóri skal hafa gæðastjórnunarkerfi og skal áður en byggingarleyfi er gefið út leggja fram yfirlit um innra eftirlit um hönnunarstörf.
Áður en byggingarleyfi er gefið út skal hönnunarstjóri jafnframt leggja fram yfirlit um ábyrgðarsvið einstakra hönnuða og árita það til staðfestingar á að samræming hafi farið fram.
Upplýsingar um hlutverk hönnunarstjóra koma fram í kafla 4.1 í byggingarreglugerð.
Listi yfir hönnuði með löggildingu skv. skrá Húsnæðis og mannvirkjastofnunar
Hvert er hlutverk byggingarstjóra?
Byggingastjórinn er trúlega mikilvægasti starfsmaðurinn sem eigandi ræður til starfa við framkvæmdir á mannvirki og hann á að ráða strax í upphafi verks.
Byggingarstjóri er faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð og starfar í umboði hans samkvæmt skriflegum ráðningar- eða verksamningi við eiganda. Byggingarstjóri skal gæta réttmætra hagsmuna eiganda gagnvart byggingaryfirvöldum, hönnuðum, iðnmeisturum og öðrum sem að mannvirkjagerðinni koma. Byggingarstjóri skal því bera hagsmuni eiganda framkvæmdanna fyrir brjósti og annast innra eftirlit eiganda allt frá því að byggingarleyfi er gefið út og þar til lokaúttektarvottorð vegna mannvirkisins í heild sinni hefur verið gefið út.
Byggingarstjóri ræður iðnmeistara í upphafi verks með samþykki eiganda – eða samþykkir ráðningu þeirra – og gerir við þá skriflegan samning í umboði eiganda um hvað verkþátt hver og einn iðnmeistari ber ábyrgð á. Með hliðsjón af ríkri ábyrgð byggingarstjóra er eðilegt að hann hafi talsvert um það að segja hvaða iðnmeistarar séu ráðnir til verksins. Byggingarstjóri skal tilkynna útgefanda byggingarleyfisins um þá iðnmeistara sem tekið hafa að sér að bera ábyrgð á einstökum verkþáttum framkvæmdarinnar. Það gerir hann með rafrænum hætti í gegnum þjónustugátt byggingarfulltrúa.
Byggingarstjóri sér jafnframt um áfangaúttektir einstakra verkþátta sem iðnmeistararnir framkvæma og tilkynnir þær til með rafrænum hætti í byggingarleyfið og/eða í Byggingargátt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Við stjórn byggingarframkvæmda hvers leyfisskylds mannvirkis skal á hverjum tíma vera einn byggingarstjóri, sbr. 27. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Byggingarstjóri skal hafa starfsleyfi Húsnæðis og mannvirkjastofnunar, sbr. 1. mgr. 28. gr. sömu laga, hafa gilt gæðastjórnunarkerfi í samræmi við kröfur 4.8.1 gr. byggingarreglugerðar og framvísa starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra til útgefanda byggingarleyfisins. Heimilt er að fela lögaðila (fyrirtæki eða stofnun) að bera ábyrgð sem byggingarstjóri, enda starfi einstaklingur hjá lögaðilanum sem er með starfsleyfi samanber gr. 4.7.6 í byggingarreglugerð.
Í lögum um mannvirki 160/2010 og í kafla 4.7 í byggingarreglugerð má sjá ítarleg ákvæði um hlutverk, skyldur og ábyrgð byggingarstjóra . Sjá einnig leiðbeiningar 4.9.1 sem Húsnæðis og mannvirkjastofnun hefur gefið út.
Listi Húsnæðis og mannvirkjastofnunar yfir byggingarstjóra með gild starfsleyfi
Hverjir geta óskað eftir öryggis- og lokaúttektum og hverjir skulu vera viðstaddir þær?
Byggingarstjóri skal óska eftir öryggis- og lokaúttekt fyrir hönd eiganda þegar hann telur sig hafa lokið viðkomandi verki með fullnægjandi hætti. Einnig getur eigandi sjálfur óskað eftir að þær séu gerðar. Ef vanrækt er að óska eftir öryggis- eða lokaúttekt getur leyfisveitandi boðað til slíkra úttekta.
Viðstaddir öryggis- og lokaúttekt þurfa alltaf að vera úttektarmaður eftirlitsaðila, byggingarstjóri og fulltrúi slökkviðliðs. Að auki skal gefa iðnmeisturum verksins og hönnuðum kost á að vera viðstaddir en lokaúttekt getur farið fram þó þeir kjósi að mæta ekki.
Upplýsingar um öryggis- og lokaúttektir koma fram í köflum 3.8 og 3.9 í byggingarreglugerð
Hvað er öryggisúttekt?
Þegar mannvirki er tekið í notkun áður en því er að fullu lokið skal óska eftir öryggisúttekt. Öryggisúttekt snýst um að gera úttekt á öryggi húsnæðisins í samræmi við ákvæði skoðunarhandbókar og skoðunarlista varðandi eldvarnir og hollustuhætti.
Óheimilt er að flytja inn í mannvirki eða taka það í notkun nema öryggisúttekt hafi farið fram og leyfisveitandi byggingarleyfis hafi gefið út vottorð um öryggisúttekt.
Eigandi mannvirkisins, eða byggingarstjóri fyrir hönd eiganda, skal óska eftir öryggisúttekt áður en það er tekið í notkun. Hafi byggingarstjóri vanrækt að óska eftir öryggisúttekt áður en mannvirki er tekið í notkun skal leyfisveitandi boða til slíkrar úttektar þegar honum er kunnugt um að notkun sé hafin. Skal leyfisveitandi tilkynna vanræksluna til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og getur slík vanræksla leitt til áminningar eða í versta falli leitt til sviptingar starfsleyfis eða löggildingar eftir því sem við á.
Upplýsingar um hvaða gögn þurfi að fylgja með beiðni um öryggisúttekt má finna í grein 3.8.2 í byggingarreglugerð
Lokaúttekt á mannvirki skal fara fram eigi síðar en þremur árum eftir að öryggisúttekt hefur farið fram. Heimilt er að öryggis- og lokaúttekt fari fram samtímis.
Spurt og svarað um heimagistingu
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman svör við algengustu spurningum varðandi heimagistingu – sjá HÉR
https://www.samband.is/verkefnin/skipulags-og-byggdamal/ferdamal-og-heimagisting/spurt-og-svarad-um-heimagistingu/