Byggingarleyfi
Verkefni byggingarfulltrúa
Byggingarfulltrúinn í Árborg starfar á grundvelli 8. gr. Laga um mannvirki nr. 160/2010, og byggingarreglugerðar eins og hún er á hverjum tíma.
Helstu verkefni embættis byggingarfulltrúa eru:
- Umsókn um byggingarleyfi – móttaka, yfirferð og afgreiðsla.
- Tilkynntar framkvæmdir – móttaka gagna og athugun á samræmi við skipulagsáætlanir.
- Undanþágur vegna smáhýsa og skjólvegga – móttaka, yfirferð og afgreiðsla undanþágubeiðna að höfðu samráði við mannvirkja- og umhverfissvið.
- Stöðuleyfi – móttaka umsókna og afgreiðsla.
- Stöðuskoðanir.
- Öryggis- og lokaúttektir.
- Stöðuúttektir vegna byggingarstjóraskipta
- Úttektir vegna byggingarstigs og útgáfa byggingarstigsvottorða.
- Skráning fasteigna í fasteignaskrá Þjóðskrár og skráning byggingarstigs.
- Umsagnir til Heilbrigðiseftirlits vegna starfsleyfisumsókna og Sýslumanns vegna rekstrarleyfisumsókna.
Byggingarfulltrúi tekur á móti umsóknum um byggingarleyfi, yfirfer umsóknir og fylgigögn, kannar samræmi við skipulag og aflar umsagna s.s. slökkviliðs eða heilbrigðiseftirlits eftir þörfum.
Byggingarfulltrúi gerir stöðuskoðanir meðan á framkvæmdum stendur, öryggisúttektir áður en bygging er tekin í notkun og lokaúttekt þegar byggingu er lokið. Byggingarfulltrúi getur einnig yfirtekið áfangaúttektir byggingarstjóra ef þörf er á, t.d. ef fram koma alvarlegar eða ítrekaðar athugasemdir í stöðuskoðun eða vegna vanrækslu byggingarstjóra.
Byggingarfulltrúi hefur eftirlit með því að sótt sé um byggingarleyfi fyrir byggingarleyfisskyldum framkvæmdum og breyttri notkun mannvirkja og að öðru leyti sé fylgt ákvæðum byggingarreglugerðar. Jafnframt hefur byggingarfulltrúi eftir föngum eftirlit með því að viðhald húsa og mannvirkja sé viðhlítandi.
Byggingarfulltrúi hefur einnig hlutverk skv. eftirfarandi lögum:
- Lög um brunavarnir nr. 75/2000 (gr. 23, 24, og 29)
- Lög um byggingarvörur nr. 114/2014 (gr. 20)
- Lög um fjöleignarhús nr. 26/1994 (gr. 16.a og 17)
- Lög um menningarminjar nr. 80/2012 (gr. 30 og 35)
- Lög um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 (gr. 19)
- Lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 (gr. 6)