Úttektir
Úttektir
Áfangaúttektir
Byggingarstjóri skal gera áfangaúttekt þegar viðkomandi verkþáttur er tilbúinn til úttektar. Úttektina skal gera í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka og skoðunarlista Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) og skila úttektinni í gagnasafn HMS (Byggingargátt, Mannvirkjaskrá).
Byggingarstjóri getur valið á milli þriggja kerfa til að uppfylla ofangreindar kröfur byggingarreglugerðar:
- Nota OneApp sem er smáforrit gert til að nota á iPad.
- Skrá úttektir beint í Mannvirkjaskrá Skráð er inn með rafrænum skilríkjum á island.is
OneApp
Sótt er um aðgang að OneApp á Mínum síðum Árborgar og þar er einnig að finna leiðbeiningar um uppsetningu og notkun.
Mannvirkjaskrá
Í Mannvirkjaskrá getur byggingarstjóri framkvæmt áfangaúttektir sjá hér.
Tilkynning um áfangaúttekt
Byggingarstjórar geta tilkynnt fyrirhugaðar áfangaúttektir í Mannvirkjaskrá eða með því aðsenda tölvupóst á uttektir.byggingadeild@arborg.is með a.m.k. 4 klst. fyrirvara.
Stöðuskoðun byggingarfulltrúa
Byggingarfulltrúi getur gert stöðuskoðun í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka hvenær sem er á meðan á framkvæmdum stendur. Leyfisveitandi skal taka mið af stærð, umfangi og áhættu einstakra framkvæmda við mat á tíðni stöðuskoðana.
Öryggisúttekt.
Þegar mannvirki er tekið í notkun skal gerð úttekt á öryggi þess og hollustuháttum í samræmi við ákvæðiskoðunarhandbókar og skoðunarlista. Óheimilt er að flytja inn í mannvirki eða taka það í notkun nema það uppfylli öryggis- og hollustukröfur laga um mannvirki og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og byggingarfulltrúi hafi gefið út vottorð um öryggisúttekt.
Byggingarstjóri skal fyrir hönd eiganda mannvirkis óska eftir öryggisúttekt áður en það er tekið í notkun. Einnig getur eigandi mannvirkis óskað eftir öryggisúttekt.
Hafi byggingarstjóri vanrækt að óska eftir öryggisúttekt áður en mannvirki er tekið í notkun skal byggingarfulltrúi boða til slíkrar úttektar þegar honum er kunnugt um að notkun sé hafin og skal hann tilkynna það Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Við öryggisúttekt ber byggingarstjóra að afhenda byggingarfulltrúa gögn sbr. 3.8.2 gr. byggingarreglugerðar.
Framkvæmd úttektar: Byggingarfulltrúi í samráði við beiðenda ákveður úttektartíma. Viðstaddir úttektina, auk byggingarfulltrúa og fulltrúa slökkviliðs, skulu vera byggingarstjóri og þeir iðnmeistarar og hönnuðir sem þess óska eða byggingarstjóri/byggingarfulltrúi hafa boðað. Byggingarstjóri skal jafnframt leggja fram frumrit eða afrit samþykktra uppdrátta sem nota skal við úttektina.
Vottorð um öryggisúttekt: Fullnægi bygging þeim öryggiskröfum sem gerðar eru gefur byggingarfulltrúi út vottorð sem hann afhendir byggingarstjóra eða eiganda. Niðurstöðu úttektar skráir byggingarfulltrúi í málakerfi sitt.
Lokaúttekt.
Þegar byggingarstjóri telur að framkvæmd sé tilbúin til lokaúttektar skal hann fylla út umsókn á Mín Árborg: Yfirlýsing um kerfi og virkni þeirra vegna öryggis-/ lokaúttektar. Sé umsóknin rétt út fyllt með netföngum fá iðnmeistarar tilkynningu og geta staðfest sína þætti með rafrænum hætti en einnig er hægt að hengja við skjöl.
Í umsóknina skal hengja við Handbók hússins svo og öll gögn sem henni kunna að fylgja. sbr. byggingarreglugerð gr. 16.1.1. gr.
Heimilt er að sleppa gerð handbókar mannvirkis við mjög einföld verk svo sem landbúnaðarbyggingar á lögbýlum, hjallar og aðrar mjög einfaldar, óupphitaðar byggingar.
Nánari upplýsingar um í hvaða tilvikum skylt er að afhenda handbók mannvirkis sem og hvert innihald hennar er að finna í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnuna.
Verði byggingarstjóraskipti á verki áður en lokaúttekt fer fram, gerir fráfarandi byggingarstjóri grein fyrir þeim hluta verksins sem hann sá um og afhendir eiganda þau gögn. Eigandi mannvirkis ber þá ábyrgð á að afhenda viðtakandi byggingarstjóra þessar upplýsingar þannig að þær megi fella á réttan hátt inn í handbókina.
Þegar búið er að fylla út yfirlýsinguna og senda er ráðlagt að senda tölupóst á netfangið uttektir.byggingadeild@arborg.is með efnislýsingunni Beiðni um úttekt.
Embættið yfirfer umsóknina og ef öll fylgiskjöl eru með og aðaluppdrættir eru áritaðir og samþykktir á kortavef sveitarfélagsins gefur byggingarfulltrúi út heimild til lokaúttektar. Skoðunarmaður finnur þá tíma í samráði við byggingarstjóra og eldvarnareftirlitið og bókar úttekt.
Ef hins vegar gögn vantar, þar með Handbók hússins er það tilefni til athugasemdar í flokki 3 skv. Skoðunarlista lokaúttektar. Athugasemd í flokki 3 telst alvarleg athugasemd skv. Byggingarreglugerð Viðauka II (bls 142) en þar segir m.a:
3. flokkur: Alvarleg athugasemd.
Athugasemd í flokki 3 leiðir ávallt til synjunar úttektar og kröfu um endurtekningu úttektar.
Óheimilt er að gefa út vottorð um lokaúttekt nema skoðunarskýrsla hafi borist þar sem staðfest er að lagfæringar hafi verið gerðar. Krefjast skal lagfæringa innan ákveðinna tímamarka.
Komi fram alvarleg athugasemd getur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun látið gera úttekt á stöðu og virkni gæðastjórnunarkerfis hlutaðeigandi byggingarstjóra og iðnmeistara verksins samkvæmt því sem nánar greinir í verklagsreglum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Ítrekuð alvarleg brot geta leitt til sviptingar löggildingar eða starfsleyfis í samræmi við verklagsreglur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Vottorð um lokaúttekt: Fullnægi mannvirkið þeim kröfum sem gerðar eru lögum samkvæmt og byggt hefur verið í samræmi við samþykkta uppdrætti gefur byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð sem hann afhendir eiganda og byggingarstjóra. Niðurstöðu úttektar skráir byggingarfulltrúi í málakerfi sitt og í Mannvirkjaskrá og uppfærir skráningu í fasteignaskrá..